Lítil velta hefur verið með hlutabréf það sem af er júnímánuði og hafa mánaðarleg meðaltöl daglegrar veltu og fjölda viðskipta lækkað verulega frá fyrri mánuðum ársins, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Síðastliðinn föstudagur var sérstaklega rólegur á hlutabréfamarkaði þegar viðskipti með úrvalsvísitölufyrirtækin námu 717 milljónum króna í 160 viðskiptum. Á hádegi náði veltan einungis fáeinum tugum milljóna króna. Þetta er minnsta velta úrvalsvísitölunnar á einum degi frá miðjum nóvember á síðasta ári. Velta á hlutabréfamarkaði er lítið líflegri í dag," segir greiningardeildin.

Það telur til tíðinda að velta á hlutabréfamarkaði sé jafn lítil og var síðastliðinn föstudaginn. ?Þróun síðustu vikna hefur verið í átt til minni viðskipta á hlutabréfamarkaði og má reikna með því að velta verði minni að meðaltali á seinnihluta ársins en á fyrri helmingi ársins. Hátt vaxtastig innanlands og erfiðara aðgengi fjárfesta að lánsfé hefur áhrif til þess að færa meiri ró yfir hlutabréfamarkaðinn. Þá hafa áhyggjur af harðri lendingu íslenska hagkerfisins, hátt verðbólgustig og kólnun fasteignamarkaðarins áhrif til minni umsvifa á hlutabréfamarkaði," segir greiningardeildin og áréttar:

?Undirliggjandi rekstur fyrirtækjanna í úrvalsvísitölunni er hinsvegar með ágætum og rekstur þeirra er vel dreifður á erlenda markaði."