Heildarvelta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu fyrstu vikuna í ágúst 2014 nam 2.950 milljónum króna. Veltan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið minni í einni viku frá því í síðustu viku janúarmánaðar á þessu ári.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 1. ágúst til og með 7. ágúst var 89, samkvæmt nýjum markaðsfréttum Þjóðskrár. Þar af voru 64 samningar um eignir í fjölbýli, 24 samningar um sérbýli og einn samningur um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Meðalupphæð á samning var 33,1 milljón króna.

Í vikunni þar á undan var fjöldi þinglýstra samninga 131 og nam heildarveltan 4.337.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga hefur ekki verið undir 100 síðan í lok maí, en vikuna 23. til og með 29. maí var 94 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu.