Lítil viðskipti voru á hlutabréfamörkuðum Asíu og nágrennis í nótt. Gengi Bandaríkjadals veiktist þó nokkuð gagnvart japanska jeninu, sem veikti gengi Nikkei vísitölunnar.

Sterkt gengi jensins hefur neikvæð áhrif á japönsk útflutningsfyrirtæki, til að mynda lækkuðu hlutabréf í Honda Motor Co. Ltd um 2,08% og Mazda Motor Corp. lækkaði um 2,94%.

Á sama tíma olli lækkandi olíuverð því að hlutabréf í Ástralíu lækkuðu einnig, til að mynda í olíufyrirtækjum eins og Oil Search Ltd, sem lækkaði um 0,81% og Woodside Petroleaum sem lækkaði um 0,41%.

Viðskipti voru þó alla jafna lítil og í misvísandi áttir. Fjárfestar bíða átekta eftir nánari ákvörðunum bandaríska seðlabankans þegar stjórnendur hans hittast í Jackson Hole í vikunni.

Helstu vísitölur á svæðinu:

  • Nikkei vísitalan í Japan lækkaði um 0,61%
  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu hækkaði um 0,38%
  • Taiwan Weighted vísitalan hækkaði um 0,55%
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong lækkaði um 0,12%
  • Dow Jones Shanghai vísitalan hækkaði um 0,09%
  • FTSE China A50 vísitalan hækkaði um 0,30%
  • S&P/ASX 200 vísitalan hækkaði um 0,70%
  • Dow Jones New Zealand vísitalan hækkaði um 0,08%