Lítil viðskipti hafa verið á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum síðustu vikur. Velta í kauphöllinni í New York hefur ekki verið minni frá því í desember. Talið er að ástæðan fyrir litlum viðskiptum sé óvissa í tengslum við vaxtaákvörðunarfund Seðlabanka Bandaríkjanna sem fer fram í dag og á morgun. Einnig er talið að óvissa vegna valdaframsals í Írak hafi stuðlað að litlum viðskiptum síðustu daga.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að engu að síður er talið ólíklegt að Seðlabanki Bandaríkjanna muni koma fjárfestum á óvart með vaxtaákvörðun sinni. Almennt er búist við tilkynningu á morgun um 0,25 prósentustiga hækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum. Þá hefur einnig verið bent á að hryðjuverkaógnin hverfi ekki þótt valdaframsal eigi sér stað í Írak. Nokkurn tíma taki að meta áhrif framsalsins og sjá hvort ofbeldisverkum fækki. Frá áramótum hefur stefnuleysi ríkt á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum þrátt fyrir góða afkomu fyrirtækja en S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 1,9% frá áramótum og Nasdaq um 0,8% segir í Morgunkorni Íslandsbanka.