Ekkert útlit er fyrir að samdráttur á evrusvæðinu komi til með að minnka á næstunni samkvæmt fréttaskýringu sem birt var í Financial Times í gær. Iðnaðarframleiðsla á evrusvæðinu er nú í tæplega 20 ára lágmarki, atvinnuleysi hefur aðeins einu sinni verið meira (og þá bara í stuttan tíma) auk þess sem aukin hætta er talin á verðhjöðnun á næstu mánuðum.

Iðnaðarframleiðsla hefur nú lækkað um 18,4% milli ára og hefur ekki verið lægri frá árinu 1990. Þá dróst framleiðslan saman um 2,3% milli mánaða í febrúar og hafði dregist saman um 2,4% í janúar samkvæmt tölum frá hagstofu Evrópu, Eurostot.

„Það er mikið áfall þegar hugsað er til þess að nærri fimmtungur allrar framleiðslu hefur þurrkast út á einu ári,“ hefur FT eftir Colin Ellis, hagfræðing hjá Daiwa Securities sem síðan bætir því við að í samanburði við Bretland og Bandaríkin séu lítil teikn á lofti um aukna framleiðslu.

Þá búast greiningaraðilar við því að þjóðarframleiðsla evruríkjanna komi til með að dragast enn frekar saman á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en á síðasta ársfjórðungi 2008 dróst hún saman um 1,6%.

Mikill samdráttur í Þýskalandi vegur þungt í þjóðarframleiðslu evrusvæðisins (sem er samansett af 16 ríkjum) en vegna hratt minnkandi útflutnings hefur iðnaðarframleiðsla dregist saman um 20% á milli ára (í febrúar) og svipaða sögu er að segja af Spáni og Ítalíu þó ástæðurnar séu aðrar. Í Frakklandi hefur framleiðslan dregist saman um 16,3%.

Verðlag hefur einnig lækkað á evrusvæðinu en samkvæmt tölum frá Eurostat lækkaði 12 mánaða verðbólga úr 1,2% í febrúar niður í 0,6% í mars og hefur ekki verið lægri í tæp 20 ár.

Þá telja viðmælendur FT að á seinni helmingi þessa árs fari af stað nokkur verðhjöðnun sem kann að auka enn frekar við atvinnuleysi á svæðinu sem mælist nú 8,4%.