Atvinnuleysi mældist 8,1% í Bandaríkjunum í síðasta mánuði samanborið við 8,3% í júlí. Mestu munar um ráðningar í einkageiranum á sama tíma og ríkisfyrirtæki sögðu upp fólki. Mesta aukningin var í þjónustugeiranum, svo sem á börum, veitingastöðum og í heilbrigðisgeiranum.

Þrátt fyrir að dregið hafi lítillega úr atvinnuleysi vestanhafs á milli mánaða þá mun lítið tilefni til þess að fagna þar sem meðalvinnustundum fjölgar lítið sem ekkert. Þá hafa laun lækkað til viðbótar.

Í netútgáfu bandaríska dagblaðsins USA Today kemur m.a. fram að bati á vinnumarkið haldist í hendur við efnahagslífið. Þ.e.a.s. það er í hægagangi sem skýrist að hluta af neikvæðum áhrifum skuldakreppunnar á evrusvæðinu sem hafi dregið úr útflutningi frá Bandaríkjunum.

Blaðið bendir sömuleiðis á að líklega muni bankastjórn bandaríska seðlabankans horfa til atvinnutalna þegar hún taki ákvörðun un það hvort hún ætli að halda áfram að styðja við hagkerfið með ýmsum ráðum, ekki síst hvort seðlabankinn muni halda áfram kaupum á skuldabréfum.