Áætluð útgjöld ríkisins fyrir árið 2014 jukust um 25 milljarða frá því að fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra var lagt fram til þar til fjárlög voru samþykkt. Það nemur um 4,3% aukningu útgjalda frá því sem áður var áætlað. Það er vel umfram þá útgjaldaaukningu sem verið hefur undanfarin ár. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekkert athugavert við breytingar sem verða á fjárlagafrumvarpi í meðferðum þingsins. Annað mál er ef ekki tekst að halda rekstri innan þess ramma sem fjárlagafrumvarpið setur.

Gagnrýndu skort á aga

Í tillögum verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem kynntar voru í lok síðasta árs var meðal annars gagnrýndur skortur á aga í þinglegri meðferð og framkvæmd fjárlaga. Kom þar fram að á árunum 2001-2011 jukust útgjöld ríkisins um 10% frá því að fjárlagafrumvarp var lagt fram þar til endanleg útgjöld ríkisins eru ljós. Í millitíðinni eru fjárlög og fjáraukalög samþykkt og svo á endanleg framúrkeyrsla stofnana ríkisins eftir að koma í ljós. Á þessum árum bættust 1,8% aukin útgjöld við þar til fjárlög voru samþykkt, 4,6% aukin útgjöld við fjáraukalög og 4% aukin útgjöld við framúrkeyrslu stofnana ríkisins. Samtals að meðaltali 10% aukin útgjöld frá því að fjármálaráðherra leggur fram upprunalegt fjárlagafrumvarp.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.