Áhugi fjárfesta er í auknum mæli farinn að beinast að ríkisbréfum með lengri líftíma, ef marka má niðurstöðu útboðs ríkisbréfa sem tilkynnt var um fyrir helgi. Sömu þróun má sjá ef litið er til síðasta útboðs.

„Þetta bendir til að gjaldeyrisskiptamarkaðurinn sé að taka við sér,“ segir Björgvin Sighvatsson, sérfræðingur hjá alþjóða- og markaðssviði Seðlabanka Íslands.

Af þessu má ráða að í kjölfar aukins vaxtamunur með gjaldeyrisskiptasamninga hafi erlendir fjárfestar leitað þangað aftur í von um að krækja í háa krónuvexti.

Í kjölfar þess að vaxtamunur á gjaldeyrisskiptamarkaði hrapaði snemma í vor jókst áhugi erlendra fjárfesta til muna á íslenskum ríkisbréfum, með það í huga að hagnast á háum íslenskum ríkistryggðum vöxtum. Lítið framboð var af ríkisbréfum um það leyti.

Seinni hluta júnímánaðar tilkynnti ríkisstjórnin um viðbótarútgáfu ríkisbréfa á innlendum markaði, þar sem gefin yrðu út ríkisbréf í þremur flokkum fyrir samtals allt að 75 milljarða króna.

Björgvin bendir á að ástæðan fyrir útgáfunni hafi ekki verið fjárskortur ríkissjóðs heldur aukin eftirspurn í kjölfar niðursveiflu gjaldeyrisskiptamarkaðarins.

„Það eru fyrst og fremst erlendir aðilar sem hafa verið að kaupa stuttu ríkisbréfin og um leið og gjaldeyrisskiptamarkaðurinn lifnar við minnkar áhugi fjárfesta á skemmri ríkisbréfum.“ Spurður hvort Seðlabankamenn fagni því að eftirspurnin sé minni, í ljósi þess að sú þróun endurspeglar aukna trú fjárfesta á gjaldeyrisskiptamarkaðnum, segir hann það ögn tvíbent.

„Auðvitað vilja menn fá góða þátttöku og selja það sem boðið er út á hagstæðum kjörum fyrir ríkissjóð, en segja má að ástæðan fyrir því að eftirspurnin hefur minnkað á ríkisbréfum stafi af jákvæðum þáttum. Það virðist hins vegar vera að áhuginn á lengri ríkisbréfum sé vaxandi, enda yfirleitt annar hópur fjárfesta sem kaupir þau bréf heldur en þau styttri; aðilar sem horfa til lengri tíma en nokkurra mánaða.“

Alls bárust 47 gild tilboð að fjárhæð rúmlega 22 milljarðar króna að nafnverði í ríkisbréf sem Seðlabankinn bauð út fyrir helgi.

Um var að ræða tvo ríkisbréfaflokka, fyrir allt að tíu milljarða í öðrum en fimm milljarða í hinum.