Fjárfestar voru ekki mjög áhugasamir um mánaðarlega víxlaútgáfu ríkissjóðs sem fram fór hjá Seðlabankanum á föstudaginn, samanborið við fyrri víxlaútboð ársins.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar Landabankans en alls bárust 30 gild tilboð fyrir 16,3 milljarða króna og ákveðið var að samþykkja um helming þeirra, eða tilboð að virði 8,4 milljarða.

Þá kemur fram að samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins er mikill meirihluti víxla í eigu erlendra aðila en í lok júlí áttu útlendingar 76% allra víxla. Enginn víxill var á gjalddaga í ágúst en í þessari viku er 20 milljarða króna víxill frá því í maí á gjalddaga.

„Endurnýjun verður því ekki mikil sem e.t.v. táknar för erlendra fjárfesta í skuldabréf en samkvæmt áðurgreindum Markaðsupplýsingum hafa þeir fjárfest í auknum mæli í lengri ríkisbréfum en áður,“ segir í Hagsjá.