Svo virðist sem erlendir aðilar hafi verið fremur áhugalitlir um ríkisbréfaútboð Lánamála ríkisins sem haldið var síðastliðinn föstudag. Í útboðinu voru tveir flokkar í boði, þ.e. óverðtryggðu flokkarnir RIKB13 og RIKB16. Eigendur ríkisbréfaflokksins RIKB 11 0722, sem eru að stærstum hluta erlendir aðilar, voru sérstaklega hvattir til þátttöku og bauðst þeim að kaupa bréf í fyrrnefndu flokkunum tveimur og greiða fyrir með bréfum sínum í RIKB11 á hreina verðinu 100,12 sem jafngildir 2,90% flötum vöxtum. Þetta kemur fram í greingarefni Íslandsbanka.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Alls bárust tilboð í styttri flokkinn, RIKB13, fyrir tæpar 1,7 milljarða króna að nafnverði. Fyrirfram hefði mátt ætla að eftirspurn í þann flokk hefði verið öllu meiri en hún reyndist.  Virðist því áhugi erlendra aðila ekki hafa vera ýkja mikill á flokknum að þessu sinni. Lánamál tóku ríflega 80% tilboðanna á 2,92% ávöxtunarkröfu.

Þá var mun meira boðið í lengri flokkinn, RIKB16, sem í boði var hjá Lánamálum á föstudag. Þannig bárust tilboð að fjárhæð 7,5 milljarða króna í flokkinn og var þeim tekið fyrir 6,5 milljarða króna á ávöxtunarkröfunni 5,65%. Líkt og reikna mátti með var niðurstöðukrafan nokkuð lægri en hún var í síðasta útboði á flokknum sem fór fram fyrir um mánuði síðan, eða sem nemur um 70 punktum. Er það í takti við þróunina á markaði á þeim tíma. Eftir útboðið er flokkurinn orðinn um 36 milljarðar króna að stærð.