Athygli vekur hversu fáir starfsmenn samstæðunnar nýttu sér forkaupsrétt í hlutafjárútboði Icelandair Group sem lauk fyrir jól.

Af þeim 160 milljónum hluta sem voru í boði skráðu starfsmenn sig aðeins fyrir um helming þeirra.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þennan litla áhuga megi fyrst og fremst rekja til þess hversu illa starfsmenn hafi brennt sig á hlutafjárkaupum í FL Group á sínum tíma. Icelandair og systurfélög þess voru sem kunnugt er í eigu FL Group þegar starfsmönnum félaganna var boðið að taka þátt í hlutafjárútboði árið 2006. Stór hluti starfsmanna, hvort sem er stjórnendur eða almennir starfsmenn, tók þátt í útboðinu með einhverjum hætti.

Vart þarf að rifja upp sögu FL Group en skammt er frá því að segja að þeir sem ekki seldu bréfin fljótlega aftur brenndu sig illa og töpuðu öllu.

Aðspurður um þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, að erfitt sé að meta hvaða áhrif kaup, og þá tap, starfsmanna á hlutabréfum í FL Group hafa haft á útboðið nú. Hér sé um að ræða allt annað félag með aðrar áherslur og ólíkan rekstur sem snýr fyrst og fremst að kjarnastarfsemi þeirri sem kennd var við gömlu Flugleiðir.

Björgólfur bendir jafnframt á að ekki sé sjálfsagður hlutur að launþegar hafi bolmagn til þess að taka fjármagn úr sínu eigin heimilisbókhaldi til þess að kaupa hlutabréf, hvers kyns sem þau eru. Út frá því sjónarmiði séu lítil kaup starfsmanna á hlutabréfum nú skiljanleg.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hvatti Björgólfur hvorki né latti starfsmenn og stjórnendur félagsins til að taka þátt í útboðinu.

- Nánar er fjallað um hlutafjárútboð Icelandair Group í Viðskiptablaðinu.