Geirþrúður Alfreðsdóttir verkfræðingur segir í grein í Viðskiptablaðinu að hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja hafi lítið breyst á þremur árum. Þá hafi athugun Credit Info leitt það í ljós að hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra hlutafélaga væri aðeins um 12 %.

„Í maí árið 2009 gerðu FKA, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands með sér samstarfssamning til fjögurra ára um að efla hlut kvenna í stjórnun íslansks atvinnulífs. FKA lagði fram lista af konum sem voru hæfar og tilbúnar voru til að taka sæti í stjórnum fyrirtækja. Niðurstaða átaksins er enn sem komið er lítll sem enginn, því þremur árum síðar er þetta hlutfall nánast óbreytt," segir Geirþrúður.

Hún bendir á rannsóknir frá árinu 2007 sem sýndu fram á betri árangur fyrirtækja sem hefðu hærra hlutfall kvenna í stjórn og hátt hlutfall kvenna í æðstu stjórnunarstöðum.

„Nú 13. maí kl. 8:30–10:00 mun FKA halda ráðstefnu í samvinnu við Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands á Hilton Nordica og er ætlunin að ræða þar um kynjahlutfall í stjórnun fyrirtækja. Vonandi munu sem flestir hlutafjáreigendur fylgjast með þeim niðurstöðum sem þar koma fram," segir Geirþrúður.

Pistil hennar í heild má lesa undir skoðanir eða með því að smella hér .