Fjárfestar virðast ekki hafa haft húmor fyrir aprílgabbi Elon Musk, forstjóra Tesla, um að fyrirtækið væri á leiðinni í gjaldþrot að því er The Wall Street Journal greinir frá .

Bréf félagsins féllu um 7% í gær en Tesla tilkynnti í síðustu að fyrirtækið þyrfti að kalla inn 123.000 Model S bíla vegna framleiðslugalla líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá .

Aprílgabbið setti Musk fram á Twitter aðgangi sínum þar sem hann sagði félagið ekki hafa náð að selja nógu mörg páskaegg í neyðarfjármögnun en félagið hefur sætt gagnrýni fyrir að eiga ekki nægilegt handbært fé.

Tesla mun í næstu viku birta framleiðslutölur fyrir fyrsta ársfjórðung en þær munu koma til með að sýna hvort félagið færist nær markmiði sínu um að framleiða 5.000 Model 3 bíla á viku en það markmið á að nást fyrir lok júní þessa árs.