Verði ekkert veitt af loðnu umfram byrjunarkvóta sem hljóðar upp á 80  þúsund tonn þá verður um verulegt bakslag að ræða í loðnuveiðum, að mati hagfræðideildar Landsbankans. Til samanburðar nam veiðin um 450 þúsund tonnum í fyrra og yrði samdrátturinn rúm 80%.

Hagfræðideild segir í Hagsjá sinni í dag að hagvaxtaráhrif af þessum mögulega samdrætti milli áranna 2013 og 2014 verða umtalsverð enda geti áhrifin á landsframleiðslu numið um 13,5 milljörðum króna til lækkunar. Til að setja áhrif af minni loðnuveiði í samhengi við landsframleiðslu á ársgrundvelli nam hún 1.761 milljörðum króna frá fjórða ársfjórðungi 2012 til þriðja ársfjórðungs í fyrra. Minni loðnuveiði myndi á þann mælikvarða hafa neikvæð áhrif á hagvöxt upp á 0,8 prósentur.

Hagfræðideild segir:

„Loðnuveiðar hafa haft töluverð áhrif á hagvaxtarþróun síðustu ára vegna mikilla sveiflna í veiði á þeirri tegund. Sé litið til meðalaflaverðmætis á árabilinu 2008-2012 eftir tegundum kemur í ljós að aflaverðmæti loðnu er það fimmta mesta. Af efstu tíu tegundunum er hlutfallslegur breytileiki í veiddu magni á ofangreindu tímabili langmestur í loðnu en minnstur í þorski. Hlutfallslegur breytileiki er næstmestur í rækju, síld og ýsu.“