Hlutabréf hækkuðu lítillega í Asíu í dag. Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir til þess að fjárfestar keyptu aftur hlutabréf sem þeir höfðu selt í gær eftir að tilkynnt var um andlát Kim Jong Il, leiðtoga N-Kóreu.

Þá lýsti ástralski seðlabankinn því yfir að allt útlit væri fyrir ró á markaði í Asíu og að markaðir þar myndu verða stöðugir á næstu misserum.

MSCI Asíuvísitalan hækkaði um 0,3% í dag. Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,5%, í Suður Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 0,8% en í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,3%.

Í Kína hækkaði Shanghai vísitalan um 0,2% og í Ástralíu stóð S&P 200 vísitalan í stað.