Lítil breyting hafði orðið á gengi helstu hlutabréfamarkaða í Asíu þegar markaðir lokuðu þar nú undir morgun. MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 0,4%.

Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar voru ekki mikil viðskipti á helstu mörkuðum en að sögn Bloomberg má að mestu leyti rekja það til nýrra talna um minni framleiðslu í Kína auk þess sem bandarískir markaðir eru lokaðir í dag vegna frídags verslunarmanna. Velta í Asíu var að sögn Bloomberg aðeins um 73% af meðaldagsveltu sl. 6 mánaða.

Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 0,6%, í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 1,1% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 0,6%.

Í Singapúr stóð STI vísitalan í stað, í S-Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 0,4% og í Ástralíu hækkaði S&P200 vísitalan um 0,3%.

Í Evrópu hafa helstu hlutabréfamarkaðir þó leitað upp á við í morgun. Í London hefur FTSE 100 vísitalan hækkað um 0,7% þegar markaðir hafa nú veri opnir í um klukkustund. Í Amsterdam hefur AEX vísitalan hækkað um 0,6% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,4%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan hækkað um 0,7% og í Zurich hefur SMI vísitalan hækkað um 0,1%.

Þá hafa hlutabréf einnig hækkað lítillega á Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn og í Stokkhólmi hafa OMXC og OMXS vísitölurnar hækkað um 0,4% og í Osló hefur OBX vísitalan hækkað um 0,5%.