Hlutabréfamarkaðir hækkuðu í Bandaríkjunum í dag, annan daginn í röð. Að sögn Bloomberg fréttaveitunnar má rekja hækkunina til jákvæðra viðbragða við birtingu væntingavísitölunnar vestanhafs en hún hefur ekki hækkað jafn mikið á milli mánaða frá árinu 2003.

Hækkunin í dag var þó ekki gífurleg. Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,6% í dag, Dow Jones hækkaði um 0,7% og S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,6%.

Eins og áður hefur komið fram lækkuðu bréf bandaríska flugrisans AMR, móðurfélags American Airlines, um 77% í dag eftir að félagið fór fram á greiðslustöðvun.

Verð á hráolíu hækkaði einnig í dag, eða um 1,6%, og við lok markaða í New York fyrir stundu kostaði tunnan af hráolíu 99,8 Bandaríkjadali. Verðið fór um tíma yfir 100 dali á markaði í dag eftir að mótmælendur í Íran réðust inn í sendiráð Breta í Teheran.