Á árinu 2003 var hagnaður af rekstri Byggðastofnunarinnar samkvæmt rekstrarreikningi, sem nam 7,2 m.kr. Rekstrargjöld stofnunarinnar voru samtals rúmlega 1.079 m.kr. og skiptast þau þannig, að um 826 m.kr. eru vegna lánaumsýslu og er stærsti einstaki liður þar framlög í afskriftareikning útlána um 664 m.kr. Þetta kom fram á aðalfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í gær.

Sérgreindur kostnaður vegna þróunarstarfssemi er um 253 m.kr. og er stærsti einstaki liðurinn styrkir, um 142 m.kr., sem stofnunin veitir til ýmissa aðila, t.d. framlög til atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni. Vergur rekstrarkostnaður Byggðastofnunar árið 2003 var um 265 m.kr. og hafði
hækkað um 1,5 % frá fyrra ári. Kostnaðarþátttaka annarra nam um 13 m.kr. Hreinn rekstrarkostnaður stofnunarinnar var því um 252 m.kr., en nam um 250 m.kr. árið áður.

Niðurstaða efnahagsreiknings Byggðastofnunar var 15.001 m.kr. um síðustu
áramót, en nam 13.173 m.kr. í árslok 2002.