Hlutabréfamarkaðir hækkuðu Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki ásamt framleiðslufyrirtækjum sem leiddu hækkanir dagsins.

Þá eru viðmælendur Reuters sammála um að tilkynning bandaríska seðlabankans frá því í gær um 1.000 milljarða dala skuldabréfakaup hafi einnig haft áhrif á markaði og í raun komi á óvart að þeir hafi ekki hækkað meira en raun ber vitni.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði um 0,6% en hafði þó um tíma í dag hækkað um 1,2%.

Eins og fyrr segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins en þar var Barclays áberandi og hækkaði um 18%. Aðrir bankar á borð HSBC, Standard Chartered, UBS, UniCredit og Credit Suisse hækkuðu um 3,3% - 6,8%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,3%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,5% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 1,2%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,6% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,2%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,5%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,2% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 4,7%.