Hlutabréfamarkaðir hækkuðu lítillega í Bandaríkjunum í dag en vangaveltur um mögulega björgun bílarisanna þriggja (GM, Ford og Chrysler) auk góðs gengis tæknifyrirtækja eru að sögn Bloomberg fréttaveitunnar helsta ástæða hækkana í dag.

Nasdaq vísitalan hækkaði um 2,2%, Dow Jones hækkaði um 0,75% og S&P 500 hækkaði um 0,7%.

Nancy Pelosi, leiðtogi meirihluta demókrata í Fulltrúadeild bandaríkjaþings sagði í dag að þingið myndi í næsta mánuði tilkynna um aukin útgjöld til hugbúnaðar og tækniþróunar sem meðal annars hefði í för með aukin umsvif tæknifyrirtækja.

Í kjölfarið hækkuðu félög á borð við Intel, Micron, Microsoft, Textel og fleiri, flest yfir 5%.

Eftir að Öldungadeild bandaríkjaþings hafnaði í gær frumvarpi um 14 milljarða dala neyðarlán til bílarisanna þriggja. Við það lækkuðu hlutabréf bæði í Asíu og Evrópu og eins og gefur að skilja lækkaði gengi bréfa bílaframleiðandanna strax við opnun markaða á Wall Street í dag.

GM og Ford hækkuðu þó lítillega aftur (þó ekki yfir núllið) eftir að talsmaður Hvíta hússins gaf til kynna að Bush forsæti íhugaði að nota eitthvað af þeim 700 milljörðum sem þingið samþykkti nýlega til handa fjármálakerfinu til að koma bílarisunum til hjálpar – þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að ekki standi til að nota það fjármagn í slík verkefni.