Hlutabréfamarkaðir lækkuðu lítillega í Evrópu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki annars vegar og námufyrirtæki hins vegar sem leiddu lækkanir dagsins en fréttastofan hefur eftir viðmælendum sínum að enn hafi fjárfestar áhyggjur af lækkandi gengi hlutabréfa.

FTSE 300 vísitalan lækkaði um 0,7% í dag en hafði um tíma lækkað um 1,5% innan dags.

Eins og fyrr segir lækkuðu margir bankar nokkuð. Þannig lækkaði Commerzbank um 10,9%, Deutsche Bank um 5,7% og Postbank um 8,8% svo dæmi séu tekin. Breskir bankar hækkuðu þó flestir.

Þá lækkuðu námufyrirtækin BHP Billiton, Xstrata og Rio Tinto á bilinu 3% - 6%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,1%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 1,2% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,2%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 0,7% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 0,2%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan hins vegar um 0,4% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,2% en í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 0,9%.