Svo virðist sem íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hafi haldið áfram að lækka í september en það lækkaði í ágúst eftir miklar hækkanir framan af ári. Samkvæmt gögnum unnum upp úr Verðssjá fasteigna sem finna má á vefsíðu Fasteignamats ríkisins lækkaði verð á íbúðarhúsnæði um 0,3% á milli ágúst og september síðastliðins en það lækkaði um 0,6% á milli júlí og ágúst. Mikill fjöldi samninga hefur skilað sér inn til Fasteinamatsins fyrir september og því er niðurstaðan góð vísbending um þróunina í mánuðinum. Hún kann hins vegar eitthvað að breytast þegar allir samningar hafa skilað sér.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að mikil umskipti hafa orðið á íbúðamarkaðinum á höfuðborgasvæðinu á þessu ári. Yfir fyrsta ársfjórðung ársins hækkaði verð íbúðarhúsnæðis um 13,0% en um 2,5% á þriðja ársfjórðungi. Eins og fyrr sagði hefur verðið verið að lækka síðustu tvo mánuði. "Við reiknum ekki með því að hér sé komið upphafið að mikilli lækkunarhrinu á verði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Markaðurinn er hins vegar að staðna og má reikna með því að á næstu mánuðum skiptist á litlar verðhækkanir og -lækkanir á milli mánaða," segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu.

Meðalverð á íbúðarhúsnæði stendur nú í ríflega 198 þús. kr. fyrir hvern fermetra en í maí á þessu ári spáðum við því að verðið myndi staldra við í rétt ríflega 200 þús. kr. í upphafi næsta árs og haldast þar fram undir lok þessara uppsveiflu í efnahagslífinu. Mat okkar nú á þeirri spá er það að spáin fari nálægt því að ganga eftir. Ekki er hægt að útiloka að þegar líða tekur á næsta ár eða kemur fram á árið 2007, sem að okkar mati mun verða samdráttarár í íslenskum þjóðarbúskap, muni verð íbúðarhúsnæðis lækka eitthvað og þá sértaklega á stærri eignum og nýju húsnæði.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.