Litís ehf. hefur selt 44 apótek í Litháen sem hafa verið rekin undir merkjum Farma í gegnum 2 litháísk félög, UAB Farma og UAB Herbarijos. Kaupandi apótekanna er Tamro Group, stærsti lyfjaheildsali í Norður-Evrópu. Tamro hefur á síðastliðnum árum sótt í auknum mæli inn á smásölumarkað lyfja.

Sala apótekanna er háð samþykki samkeppnisyfirvalda í Litháen. Litís eignaðist sitt fyrsta apótek í Litháen árið 2001 og hefur síðan þá keypt eða stofnað 43 til viðbótar, flest í Vilníus og Kaunas.

Á síðasta ári nam velta apóteka Litís í Litháen tæplega 2,5 milljörðum íslenskra króna og gert var ráð fyrir um 10% innri vexti á þessu ári.

Síðustu árin hafa apótekin skilað góðri afkomu og við þessa sölu leysir Litís til sín umtalsverðan hagnað af uppbyggingarstarfsemi sinni í Litháen á undanförnum árum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Litís.