Fjárfestingarfélagið Litís hefur fest kaup á öllu hlutafé Atorku Group í Ilsanta UAB í Litháen að því er kemur fram í frétt frá félaginu. Ilsanta er umboðs- og markaðsfyrirtæki fyrir lækningatæki, hjúkrunarvörur og lyf í Eystrasaltslöndunum og eru höfuðstöðvar þess í Vilnius í Litháen. Ilsanta rekur auk þess markaðsskrifstofur í Riga í Lettlandi og Tallinn í Eistlandi. Hjá félaginu starfa nú 45 starfsmenn.

Í tilkynningunni kemur fram að forsvarsmenn Litís telja mikla uppbygging framundan í heilbrigðisgeiranum í Eystrasaltslöndunum. Ilsanta hefur verið leiðandi félag á þeim markaði síðustu árin og sjá forsvarsmenn Litís fyrir mikil tækifæri með kaupunum, auk þess sem samlegðaráhrif munu verða við þann rekstur sem Litís er með í Litháen, en Litís starfrækir nú keðju 50 apóteka í Litháen.

Áætluð velta Ilsanta á þessu ári er um 1,7 milljarðar króna og heildarársvelta allra hlutdeildar- og dótturfélaga Litís er áætluð tæpir 4 milljarðar króna.

Mikill hagvöxtur hefur verið í Eystrasaltsríkjunum seinustu ár og er allt útlit fyrir áframhaldandi uppsveiflu þar sem og víðar í A-Evrópu þar sem Litís hyggst hasla sér enn frekari völl á næstu misserum.

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings var ráðgjafi kaupanda og Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var ráðgjafi seljanda. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Framkvæmdastjóri Litís er Sigurður Ívarsson og stjórnarformaður er Ingi Guðjónsson.