Fangelsismálastofnun hyggst festa kaup á eftirlitsratsjá til að setja upp við Litla-Hraun á Eyrarbakka. Tilgangurinn er að ratsjáin geri vart við mannaferðir utan girðingar í kringum fangelsið eða á svæðum innan þess sem eiga að vera lokuð.

„Þetta er hluti af því verkefni að bæta öryggismál á Litla-Hrauni. Fangelsismálastofnun hefur á síðustu árum fengið 150 milljónir til þess að meðal annars setja upp móttökuhús á Litla-Hrauni, skanna, nýjar girðingar og svo jafnframt þennan radarbúnað sem skiptir töluverðu máli í þessu samhengi,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri.

Páll Winkel segir að fangelsismálayfirvöld þurfi sífellt að vera á tánum vegna smygls á fíkniefnum inn í fangelsin. „Við þurfum að draga úr framboði á fíkniefnum en þurfum ekki síður að draga úr eftirspurninni með meðferðarúrræðum. Þetta kemur með heimsóknargestum og munum inn í fangelsið. Fangar hafa jafnvel verið að koma með þetta sjálfir úr dagsleyfum eða þegar þeir koma í afplánun.“ Útilokað sé þó að koma alfarið í veg fyrir fíkniefnasmygl inn í fangelsið, enda ekki hægt að framkvæma líkamsleit á öllum gestum sem koma og heimsækja fanga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .