Litla kaffistofan verður opnuð aftur innan fárra vikna samkvæmt nýjum rekstraraðilum, en nafns þeirra hefur ekki verið getið. Mbl sagði frá þessu í gærkvöldi .

Áningarstaðurinn, veitingasalan og bensínstöðin hefur verið starfrækt við Suðurlandsveg frá árinu 1960, og er eflaust flestum landsmönnum kunnug. Olís – sem rekur bensínstöðina við stofuna – á og leigir út húsnæðið.

í síðasta mánuði tilkynntu leigjendur og rekstraraðilar síðustu fimm árin að kaffistofunni yrði lokað nú um mánaðarmótin vegna breytts rekstrarumhverfis, en þá rennur fimm ára samningur þeirra við Olís út.

Nú hafa hinsvegar fundist nýir rekstraraðilar, sem segjast vel kunnugir rekstri veitingahúss, en vildu í svari til mbl ekki segja til nafns.