Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að sigurinn í Icesave-málinu hafi verið söguleg tíðindi. Dómurinn EFTA dómstólsins í málinu féll þann 28. janúar og féllst dómurinn á málatilbúnað Íslendinga.

„Litla landið okkar vann réttlátan sigur í átökum sem það hafði staðið í árum saman. Átökum þar sem andstæðingarnir voru stór erlend ríki, og jafnvel alþjóðastofnanir, en bandamenn voru fáir. Þó er rétt að minnast þess vinaþels sem Færeyingar og Pólverjar sýndu okkur strax í upphafi þrautagöngunnar,“ sagði Sigmundur Davíð í áramótaávarpi sínu sem sjónvarpað var í kvöld.

Hann sagði að vaxtakostnaðurinn við að ábyrgjast Icesave-skuldir Landsbankans hefði einn og sér orðið meiri á hverju ári en rekstrarkostnaður Landspítalans, og í raun meira en tvöfaldur sá kostnaður því að greiða hefði þurft í erlendri mynt sem ekki hafi verið til. „Ljóst er að þjóðarbúið hefði ekki staðið undir þeim greiðslum en málstaður hinnar staðföstu smáþjóðar hafði betur að lokum og fyrir vikið blasti við að allt það sem ella hefði tapast mætti nýta til að reisa við íslenskt efnahagslíf og um leið samfélagið sem svo mikið hafði mætt á,“ sagði Sigmundur Davíð.