„Það eru mjög litlar líkur á að Telekom verði selt,” hefur fréttastofan Reuters í dag eftir Saso Polanec, dósent við Hagfræðiháskólann í Lúblíana.

Þá vitnar fréttastofan í ónefnda sérfræðinga sem taka undir þetta sjónarmið og telja ólíklegt að af sölu verði á Telekom Slovenije, en eins og kunnugt er stendur Skipti, móðurfélag Símans, eitt eftir að félögunum tólf sem sýndu slóvenska símafyrirtækinu áhuga í upphafi.

Að sögn sérfræðinganna ónefndu liggja bæði fjárhagslegar og pólitískar ástæður þar að baki. Telji aðilar innan ráðandi afla tilboðin vera of lág. Í janúar var haft eftir meðlimi slóvenska þjóðarflokksins, sem situr í ríkisstjórn, að tilboðin væru í kringum 400 evrur á hlut, eða sem nemur um 270 miljörðum króna, og að flokkurinn teldi það of lágt.

Að auki séu deildar meiningar um ágæti sölunnar við núverandi aðstæður á mörkuðum. Einnig verði haldnar þingkosningar í Slóveníu í haust sem geti dregið kjarkinn úr stjórnvöldum þegar kemur að sölunni.