Reikna má með að verðbólga á evrusvæðinu verði yfir tveggja prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabanka Evrópu á komandi mánuðum. Því er lítið svigrúm til vaxtalækkana, en þetta kom fram í viðtali Bloomberg við Guy Quaden, einn stjórnarmanna seðlabankans.

„Núverandi verðbólga er vel yfir skilgreiningu okkar á því sem við köllum verðstöðugleika og horfur næstu mánuða eru ekki sérstaklega góðar," sagði Quaden, sem er jafnframt bankastjóri belgíska seðlabankans. „Sú peningastefna sem er rekin núna [á evrusvæðinu] er til þess fallin að festa niður verðbólguvæntingar, sem er okkar helsta verkefni."

Í liðinni viku hélt Seðlabanki Evrópu stýrivöxtum á evrusvæðinu óbreyttum í 4% í kjölfar þess að verðbólga mældist 3,5%. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn minnkaði hagvaxtarspá sína fyrir evrusvæðið í vikunni. Spá bankans gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 1,4% í stað 1,9%.