Litlar sviptingar voru á gengi hlutabréfa félaga sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallar Nasdaq á Íslandi á nýloknum viðskiptadegi. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 2,4 milljörðum króna og hækkaði gengi úrvalsvísitölunnar OMXI10 lítillega, eða um 0,13%, og stendur nú í 3.291,62 stigum.
Gengi hlutabréfa Reita fasteignafélags hækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 1,46% í 255 milljóna króna viðskiptum. Stendur gengi bréfa félagsins í kjölfarið í 87 krónum á hlut. Næst mest hækkaði gengi hlutabréfa tryggingafélagsins Sjóvá, um 1,06% í einungis 15 milljóna króna veltu. Stendur gengi bréfa Sjóvá nú í 38 krónum á hlut.
Gengi hlutabréfa Símans lækkaði mest allra félaga, eða um 1,64% í 98 milljóna króna veltu. Í kjölfar þessa stendur gengi bréfa félagsins í 12 krónum á hlut. Sjö önnur félög þurftu að þola gengislækkanir, en í öllum tilfellum var að ræða innan við 1% lækkun.