Nauðsynleg gögn til að svara fyrirspurn Haralds Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um heildarafskriftir í fjármálakerfinu á síðustu sjö árum eru ekki tiltæk. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Haraldur spurði meðal annars hverjar árlegar heildarafskriftir í fjármálakerfinu síðastliðin sjö ár hefðu verið. Hvernig þær skiptust milli einstaklinga og lögaðila. Hvernig þær skiptust á milli atvinnugreina og milli fyrirtækja á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Einu tölulegu upplýsingarnar sem veittar eru í svarinu eru að frá október 2008 til september 2012 hefðu uppsafnaðar afskriftir bankkana þriggja numið um 1.587 milljörðum. Þar af væru 179 milljónir vegna lána til heimila og 1.408 vegna lána til fyrirtækja. „Ráðuneytið leitaði eftir gögnum frá Fjármálaeftirlitinu (FME) vegna fyrirspurnarinnar. Nauðsynleg gögn reyndust ekki til reiðu,“ segir í svari ráðherra.