Fimm þingmenn greiddu auðlegðarskatt. Hann reiknast 1,5% á hreinar eignir einstaklinga sem áttu meira en 75 milljónir í hreina eign og maka sem átti meira en 100 milljónir. Mest greiddi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. Hrein eign hans, það er eign umfram skuldir, nemur um 600 milljónum króna. Sigmundur Davíð greiddi tæplega 8 milljónir króna í formi auðlegðarskatts.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, á um 108 milljónir í hreina eign samkvæmt opinberum gjöldum. Flokksbræðurnir Pétur H. Blöndal, Bjarni Benediktsson og Jón Gunnarsson í Sjálfstæðisflokknum koma á eftir henni. Hinir tveir fyrrnefndu eiga tæpar 100 milljónir hvor í hreina eign og Jón á rúmlega 80 milljónir króna.

Litlir einkahagsmunir

Þrátt fyrir töluvert sterka fjárhagslega stöðu þingmannanna fimm sem greiddu auðlegðarskatt, virðast þeir hafa lítilla hagsmuna að gæta. Á heimasíðu Alþingis er að finna svör þingmanna um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf utan þings. Sigmundur Davíð er ekki í neinni launaðri stjórnarsetu, hvorki í einkareknum né í opinberum félögum. Utan þings á hann þó sæti í skipulagsráði Reykjavíkurborgar. Þá á Sigmundur helmingshlut í félaginu Menning ehf., félag á sviði skipulagshagfræði. Það er ekki starfandi og hefur hvorki tekjur né gjöld.

Sá eini af fimmmenningunum sem fær greidd laun fyrir stjórnarsetu er Pétur Blöndal. Hann þiggur 10 þúsund krónur í árslaun sem stjórnarmaður í félaginu Ad Astra. Að auki er hann í launuðu starfi hjá Ad Astra og fær sirka 180 þúsund krónur á ári. Um er að ræða óvissa stundakennslu, eins og segir í svörum Péturs.

Aðrar eignir sem Pétur á er skuldlaus íbúð við Kringluna og félagið Silfurþing ehf. Hlutafé þess félags er 1,2 milljónir króna að nafnverði og eigið fé neikvætt. Álfheiður, Jón og Bjarni eiga engin félög samkvæmt hagsmunaskráningunni. Eina fasteign Álfheiðar, sem er að einum þriðja eða meira í eigu alþingismannsins, er helmingshlutur í sumarhúsi fjölskyldunnar, Vegamótum, í Flatey á Breiðafirði.

Þá tilkynnir Jón um Mar textil, innflutning og smávöruverslun, þegar spurt er um starfsemi sem unnin er samhliða þingstarfinu og er tekjumyndandi.

Svörin gefa því til kynna að fjárhagslegur auður vefjist ekki fyrir í vinnunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.