Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins (NSA) hefur ekki næga fjármuni til að bregðast við aukinni þörf til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Þetta kom fram í máli Helgu Valfells, framkvæmdastjóra NSA, á ársfundi sjóðsins í dag. Einnig kom fram í máli Helgu að ekki væri gott að sjóðurinn væri sá eini sem byði upp á fjárfestingar í sprotafyrirtæki á markaðnum.

Nýsköpunarsjóðurinn hefur fjárfest í 147 fyrirtækjum frá 1998, 72 þeirra eru ennþá starfandi. Sjóðurinn hefur selt 20 fyrirtækjanna með hagnaði frá stofnun. Enn eru 37 fyrirtæki í eignasafni sjóðsins sem samsvara 5 milljarða tekjum, og 436 starfsmönnum. Sala á þeim fimm fyrirtækjum sem sjóðurinn hefur selt til erlendra fyrirtækja síðan 2010 hafa skilað átta milljörðum inn í íslenska hagkerfið og einungis eitt fyrirtækjanna hefur flutt starfsemi sína úr landi.

Þröngur stakkur Nýsköpunarsjóðs

Hins vegar telur Helga sjóðinn hafa of lítið fjármagn til fjárfestingar. Selja verði hlut fyrirtækisins í einu fyrirtæki til þess að geta fjárfest í öðru, en það getur verið erfitt ferli. Sem dæmi um lítið fjármagn benti Helga á að í fyrra hafi sjóðnum borist 95 ný erindi en einungis verið mögulegt að fjárfesta í tveimur nýjum fyrirtækjum. Sjóðurinn hefur ekki burði til að fjárfesta í öllum þeim hugmyndum sem hann telur vænlegar. Í fyrra var áhugi fyrir því að fjárfesta í sex fyrirtækjum en fjármálin buðu einfaldlega ekki upp á frekari fjárfestingar, að sögn Helgu sem telur að sökum þessa hafi NSA misst af góðri framtíðar ávöxtun.

Helga benti jafnframt á að veltufjármunir NSA, lausafé fjárfestingar í framtíðinni, nema nú 895 milljónir hjá sjóðnum. Með því að fjárfesta 20-200 milljónir í hverju fyrirtæki samsvarar þessi fjárhæð einungis fjárfestingu í fjórum fyrirtækjum. Nýsköpunarsjóður hefur ekki fjárfest í nýju fyrirtæki sem af er ári en Helga sagðist búast við að minnsta kosti einni nýrri fjárfestingu á árinu.

Viðskiptaenglar fjárfesta jafn miklu

Heildarfjárfestingar Nýsköpunarsjóðs árið 2013 námu 357 milljónum króna. Englar voru einnig virkir á markaðnum og í fjárfestu álíka fjárhæð á móti sjóðnum. Því er áætlað að 700 milljónum hafi verið fjárfest í nýsköpun, en samkvæmt meðmælum áttu fjárfestingar í sprotafyrirtæki á Íslandi að nema 3 milljörðum.