Sala bjórs hefur farið vaxandi á Íslandi undanfarin ár og frá 2000 hefur oðið nær 50% söluaukning. Tvö fyrirtæki ráða mestu á íslenskum bjórmarkaði en nú hafa lítil brugghús hafið framleiðslu á bjór og sett á markað.

Íslendingum þykir sopinn góður og neyta hans í meira magni en áður. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands seldust tæplega 25 milljónir lítra af áfengi á Íslandi árið 2007 á móti 16,5 milljónum lítra árið 2000.

Tæplega 80% þess áfengis sem selt var í fyrra var bjór, eða um 19,5 milljónir lítra. Það jafngildir um 63 lítrum af bjór á hvern Íslending það árið.

Þessa miklu aukningu milli áranna 2000 og 2007 má fyrst og fremst rekja til aukningar í neyslu bjórs og léttvína. Þannig hefur sala á rauðvíni og hvítvíni til samans nær tvöfaldast á þessu tímabili og sala bjórs aukist um 50%.

Árið 2000 seldust um 13 milljónir lítra af bjór. Árið 2004 var salan komin í tæplega 16 milljónir lítra og hún nam 19,5 milljónum lítra árið 2007 eins og fyrr segir. Hins vegar hefur dregið úr sölu á flestu sterku áfengi á sama tímabili.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .