Ítalski iðnjöfurinn Feruccio Lamborghini stofnaði fyrirtækið árið 1963 í Sant Agata Bolognese í EmiliaRomagna héraðinu og höfuðstöðvarnar eru þar enn. Feruccio vildi keppa við aðra ítalska sportbílaframleiðendur en þó aðallega Ferrari. Lamborghini framleiddi fyrsta bílinn ári eftir stofnun sem hét einfaldlega 350 GT. Árið 1966 kom Lamborghini fram með sportbílinn Miura sem vakti mikla athygli en þetta var fallega hannaður „coupé" og mjög hraðskreiður. Vélin var aftarlega í bílnum, sem er einkennismerki Lamborghini, og bíllinn var auk þess afturhjóladrifinn.

Skin og skúrir

Fyrirtækið stækkaði mjög mikið fyrsta áratuginn og salan gekk vel. Lamborghini Islero kom fram á sjónarsviðið 1968, flottur Grand Tourer, með V12 vél en þessi bíll tók við af GT 400. Islero-nafnið er sótt í nautaat en Feruccio fannst spennandi að nöfn bílanna væru tengd því. Espada, Jarama og Urraco hétu næstu bílar og þau nöfn tengjast einnig nautaati. Espada er nafn sverðsins á spænsku sem nautabaninn ber. Eins og þeir sem þekkja til vita er stæðilegt naut í merki Lamborghini. Skal því engan undra að mikið sé sótt í nautgripi í nafngiftum fyrirtækisins.

Það harðnaði hins vegar verulega á dalnum hjá Lamborghini sem og öðrum bílaframleiðendum þegar olíu- og fjármálakreppan mikla reið yfir árið 1973. Lamborghini fann verulega fyrir því enda hættu dýrir sportbílar nánast að seljast.

Lamborghini var selt svissnesku fyrirtæki 1973 en varð síðan gjaldþrota 1978. Chrysler Corp keypti síðan Lamborghini árið 1987 og seldi það Tommy Suharto, sonar fyrrverandi forseta Indónesíu árið 1993. Enn ein kaflaskiptin í flókinni sögu Lamborghini urðu árið 1998 þegar Audi keypti fyrirtækið af Tommy Suharto, sem átti þá 60% hlut og Bycom fasteignafyrirtækinu sem átti þá 40%.

Djöfullega hraðskreiður Diablo

Á tíunda áratugnum var Lamborghini Diablo einn mest spennandi sportbíllinn á markaðnum og komst á 100 km hraða á aðeins fjórum sekúndum. Diablo nafnið kom einnig frá nautaati en bíllinn er nefndur í höfuðið á frægu nauti sem var afar erfitt viðureignar. Diablo þýðir reyndar sjálfur kölski á spænskri tungu en bíllinn var djöfullega hraðskreiður. Nokkrir Diablo bílar kepptu raunar í keppni en Feruccio ákvað að fara ekki með Lamborghini í Formúlu kappaksturinn því honum fannst það of dýrt dæmi og tæki því ekki. Hann vildi frekar einbeita sér að framleiðslu ofursportbíla fyrir götuna. Hins vegar framleiddi fyrirtækið vélar fyrir Formúluna, m.a. hina mögnuðu Lamborghini V12 vél. Síðan kom Lamborghini Gallardo fram á sjónarsviðið sem var flaggskip bílaframleiðandans í nokkur ár. Hann var með mjög aflmikla V10 vél og þykir sérlega vel heppnaður sportbíll.

Lamborghini tók upp á því að framleiða keppnismótorhjól á níunda og tíunda áratugnum og voru alls þúsund slík framleidd. Þá hefur framleiðandinn einnig selt vélar í sportbáta.

Spennandi tímar eftir hrunið

Sala á Lamborghini bílum hrundi í fjármálakreppunni fyrir áratug. Salan féll um tæp 50% en hefur risið aftur síðustu ár. Á síðasta ári seldi Lamborghini 3.815 bíla og hefur aldrei selt fleiri bíla á einu ári. Þetta var sjöunda árið í röð sem sem ítalski bílaframleiðandinn setti sölumet. Ekki teldist salan þó mikil í samanburði við marga aðra bílaframleiðendur en Lamborghini bílarnir eru jú mjög dýrir og ekki á færi nema þeirra efnameiri að kaupa þá.

Nýjustu bílar Lamborghini þykja ákaflega spennandi enda glæsilegir bílar, hraðskreiðir og vel búnir lúxus. Þetta eru sportbílarnir Aventador, sem er 790 hestöfl og aðeins 2,9 sekúndur í 100 km hraða, og Huracán, 610 hestafla kerra sem er 3,4 sekúndur í 100 km. Við þá bætist síðan nú hinn glænýi Urus sportjeppi sem er nýjasta trompið í ermi Lamborghini.

Urus sportjeppinn er með V8 vél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar alls 700 hestöflum. Hann er einn aflmesti sportjeppinn á markaðnum. Hann kostar líka um 40 milljónir króna.

Urus prófaður á Íslandi

Sjö ítalskir Lamborghini Urus sportjeppar voru einmitt hér á landi nú í október, hver að andvirði nærri 40 milljónir íslenskra króna. Heildarvirði bílaflotans er því nálægt þrjú hundruð milljónum króna. Tilefnið var kynning á bílunum fyrir erlenda bílablaðamenn, sem koma hingað víða að í nokkrum hópum.

Það er mikill hugur í Lamborghini mönnum. Stephan Winkelmann, forstjóri fyrirtækisins, áætlar að fyrirtækið muni selji 5.000-6.000 bíla á ári með þessa þrjá bíla í sölu. Lamborghini er eitt af fjölmörgum bílamerkjum innan Volkswagen bílasamstæðunnar. Næstu ár er gert ráð fyrir því að Lamborghini muni bæta við 500 starfsmönnum og að verksmiðjur þess muni stækka úr 80.000 fermetrum í 150.000 fermetra.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar . Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst á [email protected] .