Jón von Tetzchner segir frumkvöðla í mun betri stöðu til að ná sér í fjármagn en þegar hann hóf að fjárfesta hér á árunum 2012 og 2013. „Þegar ég kom hingað eftir að hafa hætt í Opera var erfitt hjá mörgum. Til dæmis hjá frumkvöðlum. Það var bara verið að loka á þá. Það var enginn að fjárfesta í þeim fannst mér og það var verið að loka skrifstofum þar sem þeir héldu til. Við vorum að reyna að gera eitthvað til að hjálpa til með því að opna Innovation House og fjárfesta í nokkrum fyrirtækjum.“

Nú sé auðveldara að fá fjárfesta að borðinu, þótt það megi ekki taka yfir aðra mikilvæga þætti í rekstrinum. „Ég held að það sé miklu einfaldara að fá fjármagn núna. Það er oft það erfiða, þó að mér finnist stundum eins og það sé of mikil áhersla á það. Áherslan er á að ná í fjármagn, að það sé sigurinn, en sigurinn er ekki að ná í fjármagn. Sigurinn er að búa til frábæra vöru og fá notendur að þeirri vöru eða selja hana eða ná kúnnum.“

Jón segir samt sem áður að nýsköpunarumhverfið  á Íslandi sé sterkt. „Það eru mörg skemmtileg fyrirtæki að koma upp. Það er gaman að fylgjast með því að fyrirtæki eru að koma með góðar hugmyndir og komast út. En vonandi fara ekki of mörg til Kaliforníu. Fókusinn þar er fjármagnið. Fólk fer í Kísildalinn, finnst mér of oft, af röngum ástæðum. Það er að fara þangað til að fá pening. Stundum heldur fólk að það sé miklu einfaldara að fá pening.  Þú getur fengið hærri upphæðir, en það er auðvitað fullt af öðrum fyrirtækjum þarna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .