Ekki má merkja miklar hækkanir á raforkuverði í Evrópu í kjölfar þess að Þjóðverjar tilkynntu um þá ákvörðun sína fyrir skömmu að loka öllum kjarnorkuverum sínum í síðasta lagi árið 2022. Þannig kostaði megawattstundin á norræna Nordpool markaðnum í fyrradag 56,2 evrur en 55,6 evrur um miðjan maímánuð og í maí sveiflaðist verð á Nordpool frá 46 evrum upp í 60 evrur.

Svipaða sögu er að segja af franska EPEX markaðnum þar sem ein MWh kostaði í fyrradag 51,8 evrur en 54,9 evrur um miðjan maí og sveiflaðist á bilinu 15-60 evrur í maí. Það skal tekið fram að 15 evra gildið var einangrað tilvik, daginn áður kostaði MWh 30,9 evrur og daginn eftir 50,1 evru. Komið hefur fram að markaðurinn óttist verðhækkanir vegna ákvörðunarinnar en til skamms tíma virðast þær ekki skila sér.