Það eru ekki bara útrásarvíkingar og stórkaupmenn sem greiða auðlegðarskatt á Íslandi. Í úttekt hér í blaðinu er farið yfir auðlegðarskattinn og greint frá hreinum eignum 170 auðugra Íslendinga.

Forvitnilegt er að skoða þann hóp listans sem alla jafna fer lítið fyrir í opinberri umræðu. Í sjöunda sæti auðmannalista Viðskiptablaðsins eru til að mynda hjónin Sigurður Örn Eiríksson og Berglind Björk Jónsdóttir. Hreinar eignir þeirra nema tæpum fjórum milljörðum króna. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst starfar Sigurður Örn sem tannlæknir en Berglind er tónlistarkennari að mennt. Faðir Berglindar er Jón Guðmundsson heitinn, útgerðarmaður í Hafnarfirði. Jón rak umsvifamikla fiskvinnslu í Hafnarfirði, Sjólastöðina. Á listanum má einnig finna fleiri tengda Sjólastöðinni, t.d. vermir 29. sætið Guðmundur Steinar Jónsson, bróðir Berglindar, ásamt eiginkonu sinni, Gígju Jónatansdóttur.

Eigandi listdansskólans, Guðbjörg Astrid Skúladóttir, skrifast hátt á blað og á hreinar eignir að andvirði um 700 milljónum króna samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins. Þá er í fimmtánda sæti Sigurbergur Sveinsson, stofnandi Fjarðarkaupa, en sextánda sætið skipar Katrín Þorvaldsdóttir sem, ef marka má hina alkunnu leitarvél Google, starfar við brúðugerð.

Í úttektt Viðskiptablaðsins í dag er farið yfir eignastöðu 170 ríkra Íslendinga miðað við álagningaskrá ríkisskattstjóra. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.