„Þetta á sér nokkurra mánaða aðdraganda,“ segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, um kaup Mohammeds Bin Khalifa Al-Than, fursta frá Katar, á 5,01% hlut í Kaupþingi.

Með kaupunum er Mohammed fursti orðinn þriðji stærsti hluthafi bankans. Tilkynnt var um kaupin í gær. Fjárfestingarfélag í hans eigu, Q Iceland Finance ehf., hefur keypt hlutinn, alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 kr. á hlut.

Kaupþing hefur í um það bil ár verið með útibú í Doha, höfuðborg Katar, og í Dubai, Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hreiðar Már segir að starfsemin þar hafi gengið ágætlega og að í gegnum hana hafi Kaupþingsmenn kynnst fjárfestum á svæðinu.

„Það var að okkar frumkvæði að honum var boðið að gerast fjárfestir,“ segir Hreiðar Már aðspurður um aðkomu Mohammeds fursta. „Hann lítur á þetta sem langtímafjárfestingu og sem tækifæri til að vinna með okkur í Mið-Austurlöndum en einnig í frekari verkefnum á öðrum mörkuðum.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .