Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV í gær að Samkeppniseftirlitið hefði kært forstjóra og starfsmenn Eimskips og Samskipa til embættis sérstaks saksóknara vegna gruns um ólöglegt samráð milli félaganna. Í kærunni eru félögin sökuð um að hafa skipt á milli sín stærstu viðskiptavinunum í þeim tilgangi að halda ró á markaðnum og verði uppi.

Fram kom í Kastljósi gærkvöldsins að í kærunni segi meðal annars í skýrslu frá Samskipum árið 2008 hafi verið settur upp listi yfir viðskiptavini Samskipa og Eimskipa. Þá fluttu Samskip inn vörur fyrir Vífilfell og voru skilaboðin þau að félagið ætti að láta Ölgerðina eiga sig á meðan Vífilfell væri hjá þeim.

Árni Stefánsson, forstjóri Vífilfells, segist í samtali við RÚV líta málið grafalvarlegum augum. Ætlar hann að leita eftir skýringum hjá forsvarsmönnum Samskipa í vikunni, þar sem um sé að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir fyrirtækið. Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, tekur í sama streng og ætlar að leita skýringa hjá Eimskipi sem séð hefur um flutninga fyrir Ölgerðina.