Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri nýrra samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, gerði sameiningu Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) að umtalsefni á stofnfundi nýju samtakanna, sem nú stendur yfir. Nýju samtökin eiga að beita sér á breiðum grundvelli og ná yfir allan sjávarútvegsgeirann.

Hann sagði sjávarútveginn alltaf hafa verið umdeildan. "Svona mikilvæg grein hlýtur alltaf að vera umdeild. Ef fólk hefur ekki skoðun er eitthvað að." Hann sagði LÍÚ hafa horft á of þröngan vinkil, samtökin hafi beitt sér fyrir "afmörkuðum hagsmunum, og þau hafa beitt sér af gríðarlegri hörku."

Kolbeinn sagði íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hafa sýnt fram á að arðsemi og umhverfisvernd geti farið saman hönd í hönd og að ný samtök ætli að setja umhverfismál í öndvegi í sínu starfi. Hann talaði einnig fyrir því að nýju samtökin einbeiti sér að menntamálum í miklu meiri mæli en nú er gert. Hann sagði sjávarútveginn þurfa að tryggja sér besta fólkið, að fólk sjái sjávarútveg sem góðan kost.