„Þetta er eina leiðin í svona stöðu,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, þegar hann er spurður út í þá niðurstöðu Samtaka atvinnulífsins (SA) að beita sér ekki fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru á Íslandi.

SA komst að umræddri niðurstöðu eftir að í ljós kom að mjög skiptar skoðanir eru um málið innan samtakanna.

Meirihluti er í fimm aðildarsamtökum SA fyrir því að samtökin beiti sér fyrir aðild að ESB og upptöku evru en meirihluti í þremur er því andvígur, samkvæmt nýlegri skoðanakönnun.

LÍÚ var búið að hóta úrsögn úr SA ef samtökin myndu beita sér fyrir aðild að ESB.

Spurður hvort LÍÚ muni þá áfram vera í SA, svarar Friðrik: „Ég held það blasi við.“ Hann segir að það sé lykilatriði að Íslendingar haldi forræði yfir sjávarauðlindum sínum.