Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ)hefur farið fram á það við sjávarútvegsráðherra að þorskkvótinn verði aukinn um 30 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári.

Þetta kom fram í máli Björgólfs Jóhannssonar, formanns LÍÚ, á aðalfundi sambandsins sem nú stendur yfir.

Sjávarútvegráðherra ákvað í sumar að þorskkvótinn yrði 130 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. LÍÚ telur að óhætt sé að veiða 155-160 þúsund tonn.

„Útvegsmenn töldu að ekki væri tekin áhætta með þorskstofninn með þeirri veiði, þó að það þýddi að lengri tíma tæki að byggja hann upp í þá stærð sem stefnt er að,“ sagði Björgólfur.

Hann benti á að þorskur væri auðveiddur allt í kringum landið.

„Sá þorskur sem nú veiðist kemur einkum sem meðafli við aðrar veiðar og þá helst við ýsuveiðar. Þetta hefur leitt til þess að veiðar hafa í auknum mæli færst á grynnri slóð nær landi svo að unnt sé að ná ýsunni. Sá þorskur sem þannig fæst sem meðafli við ýsuveiðar er smærri en sá þorskur sem fengist ef um væri að ræða beina sókn í þorsk á dýpri slóð. Með þessu móti eru fleiri fiskar í hverju tonni og áhrif veiðanna á stofninn því að sama skapi meiri en ella,“ sagði Björgólfur.