Landsamband íslenskra útvegsmanna var ekki að efna til ólöglegrar vinnustöðvunar þegar Landssambandið beindi þeim tilmælum til félagsmanna sinn í byrjun júní 2012 að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag þann 3. júní. Þetta er niðurstaða Félagsdóms sem dæmdi í málinu fyrir helgi.

ASÍ taldi að þessi háttsemi LÍÚ hafi falið í sér hvatningu til ólögmætrar vinnustöðvunar og þar með strítt gegn ákvæðum vinnulöggjafarinnar, en með háttsemi sinni var LÍÚ að mótmæla frumvörpum sjávarútvegsráðherra til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. ASÍ stefndi því LÍÚ fyrir félagsdóm.

Meirihluti félagsdóms féllst ekki á málatilbúnað ASÍ, meðal annars vegna þess að LÍÚ fullyrti að félagar LÍÚ hafi staðið að fullu við skuldbindingar gagnvart starfsmönnum sínum. Segir í dómnum að ASÍ hafi ekki lagt fram nein gögn sem hrekji þá fullyrðingu.

Einn dómari í Félagsdómi, Lára V. Júlíusdóttir, skilaði sératkvæði. Hún taldi að háttsemi LÍÚ hefði falið í sér hvatningu til ólögmætrar vinnustöðvunar jafnvel þótt félagar innan LÍÚ hafi staðið við skuldbindingar gagnvart starfsfólki.

Dómur Félagsdóms.