Félagsfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), sem haldinn var á Grand Hótel fimmtudaginn 26. júní samþykkti tillögu um að vinna að sameiningu við Samtök fiskvinnslustöðva (SF). Var stjórn félagsins veitt umboð til að vinna að undirbúningi slíkrar sameiningar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá LÍÚ.

Stjórn SF kom jafnframt saman til fundar þennan sama dag og samþykkti sambærilega tillögu.

Á næstu mánuðum verður unnið að frekari útfærslu sameiningar með það að markmiði að hægt verði að taka ákvörðun um sameiningu á aðalfundum samtakanna beggja í haust.

„Með þessu viljum við koma til móts við breyttar áherslur í greininni sjálfri. Sjávarútvegur hefur verið að þróast hratt á undanförnum árum og mikilvægt að samtök hans endurspegli þann veruleika. Ný samtök geta beitt sér með öflugri hætti fyrir sjálfbærni sjávarútvegs með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Markmiðið er að með þessu skapist aukinn slagkraftur sem stuðlar að auknum tækifærum og þar með verðmætasköpun í greininni," segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ.