Verið er að athuga sameiningu Landssambands Íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslunnar í eitt hagsmunafélag. Hugmyndin hefur verið til umræðu innan útvegsmannafélaga, en í augnablikinu liggur ekki fyrir til hvers þessar hugmyndir og umræður leiða. Þetta kemur fram í frétt á vefnum Kvótinn .

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ segir í samtali við kvotinn.is að undanfarið hafi verið farið yfir stöðu mála og stefnumörkun hjá LÍÚ og þetta hafi þótt vera einn af þeim kostum sem vert væri að skoða í samræmi við þróunina í greininni. „Við erum að vinna að því hvort sameining af þessu tagi sé skynsamleg, erum að skoða það. Ég held að það séu um 80 til 90% félagsmanna í báðum félögunum og greinin hefur breyst heilmikið. Það er hins vegar ekkert ákveðið um framhaldið, þetta er bara eitt af því sem verið er að skoða. Menn hafa tekið þessu vel, reyndar misvel að sjálfsögðu, en allir verið tilbúnir til að skoða málið. Auðvitað er það kannski vandi að LÍÚ er ekki einslitur hópur. Hagsmunir geta verið nokkuð misjafnir,“ segir Kolbeinn.