Stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna hefur samþykkt eftirfarandi áskorun til stjórnvalda:

„Stjórn LÍÚ skorar á stjórnvöld að kanna nú þegar kosti þess að taka einhliða upp annan gjaldmiðil.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá LÍÚ.

„Frá því að horfið var frá fastgengisstefnu árið 2001 hefur gengi krónunnar í raun verið stýrt með háum vöxtum. Þetta varð til þess að gengi krónunnar var allt of sterkt um margra ára skeið og leiddi að endingu til skipbrots peningamálastefnunnar,“ segir í greinargerð með áskoruninni.

„Nauðsynlegt er að grípa hratt til aðgerða til þess til að koma á stöðugleika í efnahagslífinu, lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft. Koma þarf í veg fyrir að fyrirtæki og heimili komist í þrot vegna hárra vaxta og verðbólgu og afstýra stórfelldu atvinnuleysi.“