Aukin harka virðist vera að færast í deilu aðildarsamtaka Samtaka atvinnulífsins til aðildarumsóknar að ESB. Í bréfi sem Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, hefur skrifað formanni Samtaka verslunar og þjónustu Hrund Rudolfsdóttur kemur fram að hann telur ummæli hennar meiðandi.

,,Fullyrðingar þínar um „tilraun LÍÚ að reyna að hindra að málefnið sé tekið á dagskrá og reyna að hindra að aðrir félagsmenn fái að tjá sinn vilja og verja sína hagsmuni með bestum hætti“ eru sérlega meiðandi.  Við höfum eins og áður er lýst lagt áherslu á að málið sé afgreitt á réttum vettvangi komi til þess að afstöðu SA verði breytt og að áður en að slíkt gerist beri að leita eftir afstöðu aðildarfyrirtækja samtakanna." segir í bréfi LÍÚ.

Í bréf LÍU kemur fram að samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi hafa eindregið hvatt til þess að Samtökum atvinnulífsins verið ekki beitt í baráttu með eða á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

,,Við sáum okkur hinsvegar tilneydd til að gera athugasemdir við afgreiðslu formanns SA og framkvæmdastjórnar á málinu. Það er óásættanlegt að formaður SA skyldi ekki verða við þeirri beiðni þriggja stjórnarmanna að afgreiða málið í stjórn þar sem öll aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins eiga fulltrúa eða áheyrnarfulltrúa enda brýtur það gegn samþykktum samtakanna.  Það er jafnframt afar sérstakt að formaður og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins skyldi hafna beiðni okkar um að aðildarfyrirtæki SA verði spurð um afstöðu þeirra til einhliða upptöku annars gjaldmiðils án inngöngu í Evrópusambandið. Þá finnst mér það ekki lýsa sérstaklega mikilli lýðræðisást að ekki megi spyrja aðildarfyrirtæki SA um það hvort þau vilja að SA beiti sér fyrir inngöngu í ESB þrátt fyrir að það þýði afsal á yfirráðum yfir fiskimiðunum við Ísland eins og við fórum fram á," segir í bréfinu.