Stjórn fjarskiptafyrirtækisins Nova hefur ráðið Margréti B. Tryggvadóttur í starf forstjóra félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Margrét var áður aðstoðarforstjóri Nova og hefur verið einn af lykilstjórnendum fyrirtækisins allt frá stofnun.

Margrét hefur tæplega tuttugu ára reynslu sem stjórnandi í fjarskiptageiranum en áður en hún kom að stofnun Nova starfaði hún meðal annars fyrir Tal og Vodafone.

Samhliða þessum breytingum þá hefur tæknisviði Nova verið skipt upp í tvö svið; fjarskiptasvið og upplýsingatæknisvið. Benedikt Ragnarsson mun leiða fjarskiptasvið Nova og Gunnar A. Ólafsson mun stýra upplýsingatæknisviði. Báðir hafa þeir verið lykilstjórnendur hjá Nova undanfarin 10 ár.

Liv Bergþórsdóttir, fráfarandi forstjóri félagsins, og Jóakim Reynisson, fráfarandi framkvæmdastjóri tæknisviðs Nova, láta nú af störfum hjá félaginu en munu áfram gegna ráðgjafarhlutverki og vera nýjum forstjóra innan handar næstu mánuði.

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova: „Ég hlakka til að taka við stjórninni á stærsta skemmtistað í heimi. Við ætlum að halda áfram að stækka skemmtistaðinn, viðhalda gleðinni og bæta við lagalistann fyrir viðskiptavini okkar. Vöxturinn og breytingarnar sem við höfum upplifað síðustu ár hafa verið ótrúlegar og ég hlakka til, í þessu nýja hlutverki, að vinna enn fleiri sigra með starfsfólki Nova.“