Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir fjársektir sem Samkeppniseftirlitið hafi lagt á keppinauta fyrirtækisins endurspegla þær hindranir sem fyrir stóð frammi fyrir í upphafi. M.a. gekk starfsmönnum Nova mjög erfiðlega að kaupa farsíma hjá innlendum umboðsaðilum og urðu þeir að ferðast út um allan heim til að kaupa farsíma.

Liv er í viðtali í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti, sem kom út í dag. Þar segir hún samkeppnina á farsímamarkaði hafa verið harða og óheiðarlega þegar verið var að koma Nova á laggirnar. Hún segir m.a. að eftir að Nova byggði upp fjarskiptakerfið og þjónustuna hafi starfsmönnum fyrirtækisins ekki órað fyrir því að þeir gætu lent í vandkvæðum með að fá keypta síma á samkeppnishæfu verði.

„Fyrir okkur var þetta með stærri málum árin 2007 og 2008,“ segir hún en gagnrýnir um leið hversu langan tíma taki hjá samkeppnisyfirvöldum hér að rannsaka og ljúka málum. „Hægt er að ganga af fyrirtækjum dauðum með samkeppnisbrotum ef þau horfa fram á að fá ekki niðurstöður fyrr en að þremur til fjórum árum liðnum,“ segir hún í samtali við blaðið.